Valmynd
   Um okkur
   Myndasafn


 

Skólahreysti - bakgrunnur

 

Fyrsta skólahreystimótið fór fram vorið 2005.  Sex skólar þátt í þessari hugsjón hjónanna Andrésar Guðmundssonar og Láru B. Helgadóttur sem í þeirra huga gekk út á það að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð væri á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu þar sem keppendur ynnu að mestu leyti með eigin líkama í þrautunum.  Stofnendur Skólahreysti voru sannfærð um að setja yrði íþróttagreinarnar fram á áhugaverðan máta til að fanga hylli yngri íþróttaiðkenda og var því heilbrigð keppni milli skóla þar sem einstaklingsframtakið og liðsheildin í sameiningu skiluðu bestum árangri sú nálgun sem varð ofan á  sem útgangspunktur keppninnar. Vinsældir Skólahreysti jukust jafnt og þétt og varð fljótlega ljóst að keppnin hafði hitt í mark meðal krakkanna, skólanna og ekki síst foreldranna sem áttuðu sig strax á heilbrigðum skilaboðum keppninnar og mikilvægu forvarnargildi hennar.  Þá skapaðist strax mikil og góð stemning meðal nemenda þeirra skóla sem tóku þátt í keppninni og fylltu fljótlega litrík stuðningslið íþróttahúsin þar sem undankeppnir og úrslit fóru fram, en sem dæmi þá mættu yfir 13.000 áhorfendur yfir keppnistímabilið 2009 til að hvetja krakkana til dáða.  Frá upphafi hefur Sjónvarpið gert Skólahreysti mjög góð skil og eru sýndir 50 mín þættir um  undankeppnirnar og úrslitin eru í beinni útsendingu.

Síðasta keppnisár Skólahreysti var það stærsta frá upphafi, en 134 skólar fengu boð um þátttöku og 110 svöruðu kallinu.  Úrslitakvöld Skólahreysti 2019 fór fram í Laugardalshöll í beinni útsendingu á RÚV og mældist áhorfið á keppnina 49% á landsvísu.    Alls kepptu 660 keppendur í Skólahreysti 2019 og að minnsta kosti 3000 í undankeppnum innan skólanna sjálfra. 

 Íþróttakennarar hafa tekið þessu framtaki fagnandi og stutt við þjálfun þeirra ungmenna sem tekið hafa þátt í keppninni, enda leggja núna flestir skólar metnað sinn í að þeirra keppendur standi sig vel á þessum vettvangi.  Þess ber að geta að yfir 70 skólar bjóða núna upp á Skólahreysti sem valáfanga.  Það er því óhætt að fullyrða að Skólahreysti er komin til að vera

 Hvað er Skólahreysti?

Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins.  Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum sem þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk
Tveir varamenn þurfa að fylgja hverju keppnisliði, einn strákur og ein stelpa.  Ef eigi  næst saman keppnislið í fámennum skólum er íþróttakennurum heimilt að sækja um undanþágu til mótshaldara á skolahreysti@skolahreysti.is fyrir nemendur í 8. bekk.  Viðmið um fámennan skóla er að hann hafi 20 nemendur eða færri samanlagt í 9.og 10 bekk. Ef skóli brýtur þessa reglu áskilur Skólahreysti sér rétt til að vísa þeim keppendum sem ekki hafa náð keppnisaldri úr keppni.. 


Keppt er í eftirfarandi keppnisgreinum: 

  • Upphífingum (strákar) 
  • Armbeygjum (stelpur)
  • Dýfum (strákar)
  • Hreystigreip (stelpur)
  • Hraðaþraut  (strákar og stelpur)
  •  Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan hinn keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum:  Önnur stúlkan keppir í armbeygjum og hreystigreip, en hin tekur þátt í hraðaþrautinni. Tveir skólar keppa samtímis í hverri þraut fyrir utan hreystigreip, en þar takast á fimm til átta skólar í einu. 

     Í hraðaþrautinni fer stelpan fyrst af stað og þegar hún lýkur hringnum má strákurinn fara af stað í sinn hring. Samanlagður tími þeirra er keppnistími liðsins.

    Stigagjöf  

    Fyrir fyrsta sæti í upphífingum, armbeygjum, dýfum og hreystigreip eru gefin 20 stig. Annað sæti gefur 19 stig; þriðja sæti gefur 18 stig og svo koll af kolli. Besti tíminn í hraðaþrautinni færir viðkomandi liði 40 stig, meðan annað sæti gefur 38 stig, þriðja sæti 36 stig og svo framvegis. Sá skóli sem hlýtur flest samanlögð stig stendur uppi sem sigurvegari í Skólahreysti. 

     Leiðin í úrslitin

    Þar sem mikill fjöldi skóla tekur þátt í keppninni er nauðsynlegt að viðhafa undankeppnir til að ákvarða hvaða skólar keppi í úrslitakeppninni sjálfri í lok keppnistímabilsins.  Undankeppnirnar eru 10 talsins og eru þær svæðisbundnar, þ.e. skólar frá sama landssvæði keppa innbyrðis sín á milli.  Einn skóli frá hverju landssvæði öðlast þátttökurétt í úrslitunum, en tveir árangurshæstu (ekki endilega stigahæstu) skólarnir af þeim sem enda í 2. sæti í sínum riðli fá svokölluð uppbótasæti í úrslitunum.  Heildarfjöldi skóla í úrslitum Skólahreysti er því 12. 

     Skólahreysti er viðurkennd af og nýtur opinbers stuðnings menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis,  norrænu ráðherranefndarinnar, Íþrótta & Ólympíusambands Íslands og sveitarfélaga. 

     

     

     

     

     

     

    .

    Þrautirnar
    Úrslit móta
    Hreystivellir
    IceFitness
    Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
    Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook