Valmynd
Úrslit skólahreysti 2010
                                                                                                                                                                                                                        

 
 

Skólahreysti MS 2010 - úrslit 

 

Það er ekki hægt að segja að það hafi verið rólegheit í Laugardalshöll í kvöld þann 29.apríl. Fram fór 6.úrslitakeppni  í Skólahreysti .     Þar kepptu tólf skólar sem voru : Austurbæjarskóli,Ölduselsskóli, Gr.Hellu, Egilsstaðaskóli,Dalvíkurskóli,Giljaskóli, Varmalandsskóli, Gr á Ísafirði, Lindaskóli, Heiðarskóli/Reykjanesi, Lágafellsskóli og Lækjarskóli.    Fjórir keppendur koma úr hverjum skóla til keppni og voru þetta því 48 unglingar sem tóku þátt.


Liðin voru jöfn og því skapaðiðst mögnuð stemning í Höllinni. Mættir voru þrjú þúsund manns í Laugardalshöll bæði  til að horfa á og einnig að styðja sinn skóla.    Stuðningsmannaliðin voru vel skreytt, með í för trommur og lukkudýr og létu þau ekki sitt eftir liggja að hvetja  keppendur og byggja upp gleði og stemningu sem er svo mögnuð að erfitt er að lýsa, fólk þarf að koma,sjá og upplifa.  Tvö íslandsmet féllu, í dýfum og hraðaþraut.

Það var lið Lindaskóla sem stóð uppi sem sigurvegarar í Skólahreysti MS 2010. Liðið endaði  með 67 stig. Þetta eru þau : Valgarð Reinardsson, Konný Lára Birgisdóttir, Agnes Þóra Sigþórsdóttir og Karl Kristjánsson. Valgarð sló út sitt eigið íslandsmet sem hann setti í undankeppni í vetur og var það 79 dýfur. Hann tók 81 dýfu í kvöld sem er frábær árangur. Til hamingju Valgarð.   Þau Agnes Þóra og Karl fóru í hraðaþrautina og náðu að slá út íslandsmetið í hraðaþraut frá 2009  og fóru hana á 02:06 en lið Lágafellsskóla bætti um betur.  Lindaskóli er nú í fimmta sinn í úrslitum, og annað skiptið sem þau landa skólahreystititlinum - innilega til hamingju Lindaskóli !
 
Í öðru sæti varð lið Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Þau náðu sér í 53 stig. 
Lið Heiðarskóla sigraði Skólahreysti  2009 og stóðu sig einnig frábærlega vel í ár. Þetta eru þau Unnar Már Unnarsson, Lilja Ingimarsdóttir, Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir og Brynjar Freyr Garðarsson.

Í þriðja sæti varð lið Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.  Þetta er í fyrsta skipti sem Lágafellsskóli kemst í úrslit. Lið þeirra skipaði : Andri Jamil Ásgeirsson, Jóhanna Embla Þorsteinsdótir, Telma Þrastardóttir og Kjartan Elvar Baldvinsson. Telma og Kjartan  náðu að setja íslandsmet í hraðaþraut. Þau slógu út met  sem Soffía og Eyþór Ingi úr Heiðarskóla settu 2009 og var 02:07 mín.   Telma  og Kjartan  fóru hraðabrautina á 02:05 sem er glæsilegur árangur og óskum við þeim innilega til hamingju með það.   Glæsilegur árangur að komast í fyrsta sinn í úrslit og svo á pall.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti  verðlaun ásamt Forstjóra Mjólkursamsölunnar Einari Sigurðssyni.  Í verðlaun voru glæsileg reiðhjól úr Markinu sem sigurliðið fékk, peningaverðlaun sem renna til nemendafélaga skólanna, ostakörfur, medalíur og eignarbikarar. Mjólkursamsalan gefur öll verðlaun.

Ásgeir Erlendsson var ásamt Magnúsi Scheving að lýsa keppninni beint á RÚV og Felix Bergsson tók viðtöl í útsendingu. Jónsi stýrði keppendum inn í greinar og hélt uppi magnaðari stemningu í stúku eins og honum einum er lagið. 

Öll liðin sem mættu í Laugardalshöll í kvöld og tóku þátt í Skólahreysti í beinni útsendingu voru frábær.   Árangrar  þeirra voru   mjög góðir og allir keppendur virkilega flottir fulltrúar sinna skóla. Allir þessir krakkar eru sannkallaðir sigurvegarar. Til hamingju öll.

Allir árangrar úr öllum greinum og úrslit er að finna hér á síðunni Skolahreysti.is  undir „úrslit móta „

Einnig er að finna ýmsar upplýsingar á facebook. 

Nú er Skólahreysti MS 2010 lokið eftir tíu undankeppnir, fjóra sjónvarpsþætti, úrslitakeppni og beina útsendingu af henni.    Nú er ekkert annað en að fara að undirbúa Skólahreysti MS 2011. 

Þökkum kærlega fyrir skemmtilegt samstarf í vetur og sjáumst hress á því næsta.


Hreystikveðjur,

Andrés Guðmundsson og Lára Berglind Helgadóttir

 


Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook