Valmynd
Lokaúrslit Skólahreysti 2013Mosfellsbær 3.maí 2013

Í gær var hátíðisdagur í Skólahreysti MS.

Úrslit fóru fram í beinni útsendingu á Rúv frá Laugardalshöll. Um fjögurþúsund stuðningsmenn og áhorfendur komu í Höllina og stemningin og fjörið var engu líkt og skilaði það sér vel heim í stofu.

Tólf skólar kepptu til úrslita. Keppnin hefur aldrei verið jafn jöfn og hörð og það segir okkur að skólarnir eru farnir að æfa betur og betur og leggja meiri áherslu á íþróttina.

Skólarnir sem kepptu voru, Egilsstaðaskóli,Vallaskóli,Lindaskóli,Laugalækjarskóli,Gr.á Ísafirði,Grundaskóli,Breiðholtsskóli,Holtaskóli,Gr.Fjallabyggðar,Síðuskóli,Varmárskóli og Myllubakkaskóli.

Í fyrstu grein, upphífingum var það Hrannar Jónsson úr Lindaskóla sem tók flestar upphífingar eða 47 stk. 

Armbeygjur sigraði Magðalena Lára Sigurðardóttir úr Grundaskóla og tók hún 67 stk.

Dýfur tók flestar Kristinn Bragi Garðarsson úr Grundaskóla, hann tók 62 dýfur.

Harpa Hlíf Guðjónsdóttir úr Vallaskóla á Selfossi hékk stúlkna lengst í hreystigreip, hékk hún í 4,37 mín. 

Hraðaþrautina fóru hraðast Hildur Karen Jónsdóttir og Ernir Jónsson úr Laugalækjarskóla. Þau flugu í gegnum brautina á tímanum 2,14 mín.

Eftir ótrúlega spennandi keppni var það Holtaskóli sem endaði í fyrsta sæti með 53,5 stig. Holtaskóli er þar með að ná þriðja sigri í röð í úrslitum sem er í fyrsta sinn í sögu Skólahreysti.

Breiðholtsskóli varð annar með 50 stig og Lindaskóli í því þriðja með 49 stig. Í fjórða sæti varð Laugalækjarskóli með 46 stig, Myllubakkaskóli í fimmta sæti með 44 stig, Grundaskóli í sjötta sæti með 43 stig, Varmárskóli í sjöunda sæti með 41 stig, Vallaskóli í áttunda sæti með 36 stig, Egilsstaðaskóli í því níunda með 30,5 stig, Síðuskóli í 10 sæti með 30 stig, Gr.Fjallabyggðar í ellefta sæti með 27 stig og Gr.á Ísafirði í því tólfta með 18 stig.

Munur á stigum hefur aldrei verið eins lítill og í ár. Skólarnir skiptu á milli sín toppsætunum alla keppnina og ómögulegt að segja til um úrslit fyrr en eftir hraðaþrautina. Þvílíkur kraftur undir einu þaki. Krakkarnir eru sannarlega hetjur sinna skóla og hreystimenni.

Til hamingju Holtaskóli öll sem eitt og sérstaklega Theodór Sigurbergsson,Kolbrún Júlía Newman,Ingibjörg Sól Jónsdóttir og Guðmundur Ólafsson – þið eruð frábærir keppendur og stóðuð ykkur vel. Ekki má gleyma Íþróttakennurunum, þeim Einari G.Einarssyni og Bergþóri Magnússyni. Þeir eru lykilmenn skólans svo árangur náist í Skólahreysti.

En einnig langar okkur að þakka öllum liðunum sem mættu til úrslitakeppni. Við vitum hvað þið eruð búin að leggja gríðarlega mikið á ykkur. Árangrarnir sem þið sýnduð ÖLL í gær nást ekki nema með þrotlausum æfingum og dugnaði. Við vitum af öllum sárunum í lófunum og á lærunum og stressinu. Munið að þó þið hafið ekki endað á palli þá eruð þið einn af tólf bestu skólum á landinu í Skólahreysti. Þið eruð hetjur og hreystimenni ykkar skóla og vonandi nýtið þið ykkur þessa reynslu á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Að keppnin geri ykkur að enn sterkari einstaklingum.

Einnig viljum við þakka lykilmönnum okkar í skólunum sem eru íþróttakennararnir. Þið eigið miklar þakkir skyldar. Eins stjórnendum skólanna sem ár eftir ár sýna okkur traust og trúnað. Leggja á sig skipulagsvinnu með stuðningsmannahópa og greiða fyrir rútur á keppnisstaði.

Og síðast og ekki síst stuðningsmenn. Takk svo innilega fyrir allan kraftinn og fjörið sem þið komuð með inn í öll íþróttahúsin. Miklar þakkir.

Hér er slóðin inn á þáttinn á Rúv :  http://www.ruv.is/sarpurinn/skolahreysti/02052013-0   


Kær kveðja til ykkar allra og sjáumst hraust og flott á næsta ári 

Ykkar, Lára og Andrés – Skólahreysti MS


Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook