Valmynd
Lindaskóli sigrar 3. riðil
 
Það var mögnuð spenna í Íþróttahúsi Breiðabliks í Fífunni í gær þegar 3.riðill Skólahreysti fór fram.
 
1000 manns mættu til að horfa á og styðja sinn skóla og var það gert að miklum krafti.  Skólarnir eru duglegir að koma með rútur fullar af stuðningsmönnum.   Allir þessir krakkar eru til fyrirmyndar og viljum við þakka stjórnendum skólanna og þeim sem fylgja krökkunum á mótin  fyrir að gera þeim kleift að koma.   Í sumum stuðningsmannaliðum eru allir í eins bolum.  Spjöldin eru alltaf að verða flottari og flottari og stuðningsmannalög og köll heyrast um alla palla.  Alveg ólýsanlega flott og skemmtilegt.   

Varmárskóli var fremstur meðal jafningja á pöllunum. Þeir mættu með þrjár fullar rútur.   Þeir voru í flottu fjöri frá upphafi til enda mótsins.  Enda gekk Varmárskóla vel í keppninni.  Það er engin vafi á því að góð hvatning hefur jákvæð áhrif á keppendurna og gefur þeim aukaorku í greinunum.    Sem sagt Varmárskóli átti öflugasta stuðningsmannaliðið í þriðja riðli ! 
 
14 skólar mættu til leiks - 56 krakkar kepptu.
 
Keppnin var jöfn og spennandi.  Það voru þó þrjú lið sem skiptu með sér þremur efstu sætunum alla keppnina.  Það voru lið Digranesskóla, Salaskóla og Lindaskóla.  
 
Keppendur frá  Lindaskóla stóðu á endanum uppi sem sigurvegarar  með 74 stig.  í öðru sæti varð Salaskóli með 58 stig og í þriðja sæti endaði Digranesskóli með 56 stig.    
 
Lið Lindaskóla er á myndinni hér að ofan og heita frá vinstri :  Karl Kristjánsson, Fríða Rún Einarsdóttir, Guðmundur Örn Magnússon og Rakel Másdóttir. 
 
Það kom ekki á óvart að lið Lindaskóla sigraði riðilinn þar sem tveir úr liðinu eru Íslandsmeistarar Skólahreysti 2007.   Það  er Fríða Rún Einarsdóttir og sigraði hún armbeygur með því að ná 55 stk.    Fríða Rún á íslandsmetið í armbeygjum sem hún tók í fyrra og er það 65 armbeygjur.    Hún er sannur  íþróttamaður þar sem hún mætti til leiks á hækjum eftir aðgerð á fæti.  Hún lét það ekki stöðva sig.  Ekki að undra að hún hafi verið kosin íþróttamaður Kópavogs. 

Svo er það Guðmundur Örn Magnússon sem fór í hraðaþrautina ásamt Rakel Másdóttur.  Þau sigruðu hana glæsilega á 2;17 mín.  Guðmundur Örn á íslandsmetið frá 2007 og er það 2;11 mín. 
 
Til hamingju Lindaskóli !


Úrslit úr einstökum greinum :
 
Upphífingar : Digranesskóli 34 stk - Oddur S.Einarsson
Armbeyjgur : Lindaskóli 55 stk - Fríða Rún Einarsdóttir
Dýfur : Lindaskóli 34 stk  - Karl Kristjánsson
Hraðaþraut : Lindaskóli - Rakel Másdóttir og Guðmundur Örn Magnússon
 
Nánari úrslit er að finna undir "úrslit móta"
 
Þáttur frá þessum riðli verður sýndur á Skjá einum næsta þriðjudagskvöld 05.febrúar kl. 20:00 
 
Fjórði riðill fór einnig fram í gær.   Við setjum inn fréttir af honum þegar búið er að sýna  þáttinn af þriðja riðli  næsta þriðjudag. 
Þáttur frá fjórða riðli verður svo sýndur á Skjá einum 12.febrúar kl. 20:00.  Þið megið alls ekki missa af honum því þar fljúga íslandsmetin.   
 
Fjórtanda febrúar  fer Skólahreysti af stað út á land og byrjar á Selfossi. 
 
Nú er ljóst að  Foldaskóli, Hagaskóli og Lindaskóli eru komnir í úrslit.     
 
Haldið áfram að fylgjast með ótrúlega spennandi Skólahreysti 2008.  Keppendur hafa aldrei verið sterkari,  flottari eða betri. 
 
 
 

Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook