Valmynd
Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar sigraði 6.riðil
 
Aðsóknarmet áhorfenda frá upphafi var slegið í Íþróttahúsinu Tjarnarbraut á Egilsstöðum í gær 21.febrúar þegar 6.riðill í Skólahreysti fór þar fram.   Um 1000 stuðningsmenn og áhorfendur mættu í húsið að styðja og styrkja sinn skóla í hreysti og þoli. 

Pallarnir voru troðfullir og þurfti að hleypa fólki á gólfið til að það gæti séð alla flottu og hraustu krakkanna frá Austfjörðum brillera í skólahreystiþrautunum. 

 Stuðningsmannalið Seyðisfjarðarskóla átti daginn.  Þau voru í appelsínugulum bolum með fullt af skiltum  og trommur og allt sem hugsanlega er hægt að gera til að hvetja  sinn skóla.  


Jónsi tryllti alla með ótrúlega skemmtilegri framkomu og ekki minnkaði stuðið í húsinu við það.   Ívar Guðmundsson okkar frábæri Bylgu útvarpsmaður og heilsuræktarfrömuður sá einnig um að allt gengi flott  og smurt á gólfinu. 
 
Þrettán lið mættu til leiks og voru þau : Brúarásskóli, Fellaskóli, Gr.Breiðdalshrepps, Gr.Eskifjarðar, Gr.á Stöðvarfirði, Gr.á Reyðarfirði, Gr.Egilsstaða og Eiða, Gr.Fáskrúðsfjarðar, Gr.Hornafjarðar, Hallormsstaðaskóli, Nesskóli, Seyðisfjarðarskóli og Vopnafjarðarskóli.

Keppnin var jöfn og spennandi út í gegn.  Grunnskóli Hornafjarðar sem sigraði keppnina í fyrra  og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar sem lenti í öðru sæti í fyrra börðust þó harðast á toppnum allt mótið.  Fast á hæla þeirra voru  Grunnskóli Egilsstaða og Eiða, Vopnafjarðarskóli, Seyðisfjarðarskóli og Grunnskóli Hallormsstaðar.  
 
 
Lið Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar var efst að stigum fyrir lokagrein sem er hraðaþraut.  Þeir náðu öðru sæti í hraðaþraut á tímanum 03:07 mín og tryggðu sér þar sigur í mótinu og þátttökurétt í úrslitum sem fram fara 17.apríl í Laugardalshöll. Þau náðu sér í 68.5 stig.  Sætur sigur þar sem þau enduðu í öðru sæti í fyrra og því mjög gaman að þau næðu fyrsta sætinu núna.  Til hamingu Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar !    Við sjáum þau á myndinni hér að ofan og heita þau frá vinstri : Bryndís Hjálmarsdóttir, Birna Guðmundsdóttir, Hilmar Freyr Bjarþórsson og Björgvin Stefán Pétursson.
 
Í öðru sæti varð Grunnskóli Hornafjarðar með 61 stig.  Krakkarnir á Hornafirði greinilega alltaf í flottu formi.  Þau sigruðu tvær fyrstu greinarnar og á tíma leit út fyrir að þau næðu sigri eins og í fyrra.   Í þriðja sæti varð svo  Hallormsstaðaskóli með 56,5 stig. Greinilega hraustir og frískir  krakkar á  Hallormsstað.  
 
Úrslit í hverri grein : 1.sæti
 
Upphífingar : Gr.Hornafjarðar/Ólafur Albert Sævarsson 27 stk.
 
Armbeygjur : Gr.Hornafjarðar/Anna Mekkín Reynisdóttir 39 stk.
 
Dýfur : Gr.Fáskrúðsfjarðar/Hilmar Bjartþórsson 33 stk.
 
Hreystigreip : Gr.Fáskrúðsfjarðar/Bryndís Hjálmarsdóttir
 
Hraðaþraut : Vopnafjarðarskóli/Björk Björnsdóttir og Kristófer Einarsson 03:02
 
Öll nánari úrslit er að finna undir úrslit móta á síðunni. 
 
Nú er bara að horfa á þáttinn á þriðjudagskvöldið næst komandi kl.20:00 á Skjá einum.  
 
Það var æðislegt að koma til Egilsstaða.  Starfsfólkið í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum á hrós skilið fyrir ljúfa  og jákvæða framkomu í garð alls skólahreystisfólks.  Takk fyrir það :) 
 
Akureyri er næst á dagskrá.   Fimmtudagurinn 28.febrúar í Íþróttahöllinni Skólastíg.  Tveir riðlar.  Hefst sá fyrri kl.15:00 og sá seinni kl.18:00.    Skólar úr dreifbýli Akureyrar mæta í fyrri riðil.  Skólar á Akureyri og nágrenni mæta í seinni riðil.  Setjum nánar um það inn fljótlega. 
 
 
 

Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook