Valmynd
Siglufjörður sigraði 7.riðil
 Sjöundi riðill í Skólahreysti fór fram í gær í Íþróttahöllinni Skólastíg á Akureyri.  Ellefu eftirtaldir skólar kepptu í þessum riðli : Árskóli, Dalvíkurskóli, Gr.Blönduóss,Gr.Hofsóss, Gr.Ólafsfjarðar, Gr.Siglufjarðar, Reykjahlíðarskóli, Grenivíkurskóli, Húnavallaskóli, Höfðaskóli og Varmahlíðarskóli. 
 
Þetta var sterkur riðill og baráttan mikil.  Árangursbæting  hjá skólum er mikil á milli ára og greinilegt að krakkarnir æfa sig vel.  Það voru þrír skólar sem börðust um toppsætið allt mótið.  Reykjahlíðarskóli, Dalvíkurskóli og Grunnskóli Siglufjarðar.  Húnavallaskóli, Árskóli og Gr.Blönduóss voru rétt á eftir.   
 
Lið Gr. Siglufjarðar hafði titil að verja frá fyrra ári.   Komu þau kappsfull til leiks og augljóslega  ákveðin í að taka vel á því.   Guðrún Ósk Gestsdóttir sigraði armbeygjur og tók 48 stk. Ástþór Árnason tók 25 dýfur og náði fyrsta sæti í þeim ásamt Kristóferi Víólettusyni frá Dalvíkurskóla sem einnig tók 25 stk
 
 Spennustigið var hátt  fyrir síðustu grein, hraðaþraut.  Þá var Gr.Siglufjarðar með 36,5 stig og Dalvíkurskóli aðeins hálfu stigi á eftir þeim eða með 36 stig.     Svava og Anton frá Gr.Siglufjarðar sigruðu hraðaþrautina og innsigluðu þar með sigur Gr. Siglufjarðar og náði liðið sér samtals í 58,5 stig.   Við sjáum mynd af þeim hér að ofan og heita þau frá vinstri talið : Svava Stefanía Sævarsdóttir, Guðrún Ósk Gestsdóttir, Ástþór Árnason og Alexander Örn Kristjánsson.
 
Reykjahlíðarskóli varð í öðru sæti með 47,5 stig.  Bjarni Þór Gunnarsson stóð sig frábærlega vel.  Hann sigraði upphífingar og tók alls 39 stk.     Lið Dalvíkurskóla endaði í þriðja sæti með 42 stig. 
 
Anný Mjöll Sigurðardóttir úr Húnavallaskóla sigraði hreystigreip á glæsilegum tíma eða 03;21 mínúta. 
 
Sexhundruð manns mættu til að horfa á keppnina.  Stuðningsmenn komu margir hverjir langt að en það hindraði þá greinilega ekki  frá því  að koma. Forsvarsmenn skólanna koma með rútur fullar af krökkum til að horfa á og hvetja.  Algjörlega til fyrirmyndar af skólunum að fjölmenna svona með stuðningsmannaliðin.  Ómetanlegt fyrir keppendur að fá svo öfluga hvatningu og gerir sjónvarpsþættina miklu skemmtilegri.     Það er ólýsanlega flott stemning á þessum mótum ogJónsi setur gjörsamlega punktinn yfir i-ið.  Hann er frábær.  
 
Nú eru sjö lið komin í úrslit og eru þau eftirtalin :  Foldaskóli, Hagaskóli, Heiðarskóli, Lindaskóli, Hvolsskóli, Gr.Fáskrúðsfjarðar og Gr. Siglufjarðar. 
 
Þáttur frá þessu móti verður sýndur næst þriðjudag 04.mars kl.20:00 á Skjá einum.   Ekki missa af honum ! 
 
Í áttundi riðli í Skólahreysti eru skólar frá Akureyri og nágrenni.  Hann verður sýndur 11.mars á Skjá einum. Þar keppa  Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Hrafnagilsskóli, Lundarskóli, Síðuskóli og Þelamerkurskóli.  Við setjum inn frétt frá þeim riðli strax eftir helgi.  Leyfum sjöunda riðli að njóta sín í nokkra daga.   
 
Stuðningsmannalið Árskóla var fremst meðal jafningja í gær.  Þau voru búin að búa til DANS.  Geri aðrir betur !  Þau væru æði !  

Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook