Valmynd
Grundaskóli aftur í úrslit í Skólahreysti

Íþróttahúsið Vesturgötu á Akranesi var smekkfullt í gær af stuðningsmönnum og áhorfendum liðanna níu sem voru að keppa í Skólahreysti.  Stemningin var ólýsanlega fjörug og skemmtileg.  Jónsi er stemningssérfræðingur og heldur öllum á brosandi og fjörugum tám allan tímann.   Það er eiginlega alls ekki hægt að lýsa þessari stemningu, engri lík og fólk verður bara að koma, sjá og upplifa ! 

Skólarnir sem kepptu voru : Varmalandsskóli, Heiðarskóli, Gr.Húnaþings vestra, Gr.í Stykkishólmi, Gr.í Búðardal, Gr.í Borgarnesi, Grundaskóli, Brekkubæjarskóli og Gr. Snæfellsbæjar. 

Keppnin var ótrúlega spennandi.  Grundaskóli og Heiðarskóli slógust um fyrsta og annað sætið alla keppnina.
Þó Heiðaskóli hafi sigrað þrjár greinar sem er frábær árangur þá dugði það ekki til  sigurs.  Grundaskóli sigraði eina grein og fór aldrei neðar en í þriðja sæti í neinni grein og það tryggði liðinu sigursæti.    Varmalandsskóli og Gr. í Stykkishólmi börðust um þriðja og fjórða sætið.  


Grundaskóli sigraði með   47,5 stigum.  Arnór Freyr Símonarson sigraði upphífingar og tók hann 26 stk.  Við sjáum mynd af þeim hér með ostakörfurnar góðu frá MS. Þau heita frá vinstri : Árni Steinar Guðnason, Lóa Guðrún Gísladóttir,  Birta Stefánsdóttir og Arnór Freyr Símonarson.   Til hamingju Grundaskóli ! 

Heiðaskóli,  aðeins tveimur stigum á eftir sigurliði,  endaði í öðru sæti með 45,5 stig.  Þau sigruðu þrjár greinar.  Eiður Rafn Hjaltason sigraði dýfur og tók 28 stk.   Sara Eir Árnadóttir hékk lengst í hreystigreip.  Náði tímanum 02:56 mín.   Einnig sigruðu þau hraðaþraut.  Elva Rut Árnadóttir og Ólafur Jósef Ólafsson fóru brautina á frábærum tíma eða 02:38 mín.   Flottur árangur að sigra þrjár greinar. 

Ótrúleg spenna var um þriðja sætið.  Fyrir hraðaþraut var Gr. í Stykkishólmi í þriðja sæti.   Lið Varmalandsskóla var ekki auðvelt viðureignar í hraðaþraut.  Þau Alda Valentína Hafsteinsdóttir og Chalee Siggi Mahtua fóru brautina á góðum tíma eða 02:44 og það dugði þeim til að komast í 3.sæti og á  verðlaunapall.  Þau enduðu með samtals 37 stig.    Anna Kristín Árnadóttir úr Varmalandsskóla var einnig ósigranleg í armbeygjum og tók 28 stk og náði þar fyrsta sæti.  

Öll nánari úrslit er að finna á síðunni undir " úrslit móta "  

Þáttur frá þessu móti verður sýndur á Skjá einum næst komandi þriðjudagskvöld 01 apríl kl.20:10  -  Ekki missa af honum ! 

Nú eru eftirtaldir níu skólar komnir í úrslit 17. apríl í Laugardalshöll :  Foldaskóli, Hagaskóli, Lindaskóli, Heiðarskóli/Reykjanesbæ, Hvolsskóli, Gr.Fáskrúðsfjarðar, Gr.Siglufjarðar, Giljaskóli og Grundaskóli. 

10. og síðasti riðill í Skólahreysti verður í Ísafirði næsta fimmtudag 03.apríl í Íþróttahúsinu Torfnesi og hefst hann kl.13:00 

Sjáumst á Ísafirði ! Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook