Valmynd
Hagaskóli Skólahreystimeistarar 2008


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Tinna Óðinsdóttir hægra megin og og Anna Jia vinstra megin lyfta hér eignarbikar sem MS gefur meðal annara verðlauna í úrslitum í Skólahreysti. Liðsfélagar þeirra
standa þeim við hlið,  vinstra megin er Juan Ramon Borges og til hægri er Jón Sigurður Gunnarsson.  Þetta er lið Hagaskóla sem sigraði svo glæsilega
úrslitin í Skólarheysti sem fram fór í Laugardalshöll í gærkveldi þann 17.apríl í beinni útsendingu á Skjá einum. 
 
Tíu grunnskólar víðs vegar af landinu kepptu í 5 greinum.  Fjórir keppendur komu frá hverjum skóla.  Keppnin skiptist í tvennt.  Einn strákur sér um upphífingar og dýfur og ein stelpa sér um armbeygjur og hreystigreip.  Þetta gildir samanlagt fimmtíu prósent.  Fimmtíu prósent á móti gildir svo hraðaþrautin.  Strákur og stelpa fara saman í hana.  Stigin eru lögð saman úr þessum tveimur hlutum og þannig fengin niðurstaða.
 
Hver skóli kom með sitt innkomuatriðið þegar liðin voru kynnt til leiks í upphafi keppninnar.  Sjá mátti hinar ýmsu útgáfur á því.  Lið Hvolsskóla kom með hlaupandi pulsur á undan sér sem  eiga rætur að rekja til SS á Hvolsvelli. Súpermann mætti að sjálfsögðu með Lindaskóla, kominn hefð á að hann mæti. Tanaðir, stæltir lífverðir " í símanum" pössuðu vel upp á keppendur Foldaskóla,  bara svo dæmi séu tekin.  Öll liðin voru flott og til fyrirmyndar. 

Skólahreystistemningin í stúkunni var mögnuð.  Rúmlega 2000 manns mættu í Laugardalshöllina til að fylgjast með úrslitunum.  Krakkarnir  úr skólunum voru öflugustu stuðningsmennirnir, klæddir í boli með litum keppnisliða, spjöld,trommur, klappstírudót og fjör.  Svo koma líka allir hinir.  Pabbar, mömmur, afar og ömmur, systkini, frændur og frænkur,  allir mæta og hafa jafn gaman af. Enda alltaf frítt inn á Skólahreysti.   Svo eru aðdáendur Jónsa í kippum.  Elta hann um allt að taka myndir af sér með honum og fá áritanir !  Enda Jónsi engum líkur,  ljúfur og næs við alla, smáa sem stóra.

Hagaskóli varð í fyrsta sæti með 53 stig. Lindaskóli varð í öðru sæti með 50 stig og Gr.Siglufjarðar endaði í þriðja sæti með 40,5 stig. 

Hagaskóli, Lindaskóli og Foldaskóli börðust um þrjú efstu sætin alla keppnina.   Hagaskóli varð í öðru sæti í úrslitum í fyrra og var vel að titlinum kominn í ár.  Lindaskóli hafði titil að verja, en lið Hagaskóla var öflugt.  Munaði aðeins þremur stigum á þeim í lokin.  Foldaskóla  gekk ekki alveg nógu vel í hraðaþrautinni og því tókst Gr. Siglufjarðar sem stóð sig frábærlega í hraðaþraut að komast upp í þriðja sætið að lokum. 
 
Árangrar í hverri grein :
Upphífingar sigraði Jón S.Gunnarsson úr Hagaskóla og tók hann 39 stk. 
 
Armbeyjgur sigraði Tinna Óðinsdóttir, einnig úr Hagaskóla og tók hún 64 stk.  Var hún aðeins einni armbeygju frá skólahreystimeti sem er 65 stk.     Ekkert smá flott hraust og flott stelpa.
 
Dýfur sigraði Pálmi Rafn Steindórsson úr Foldaskóla og tók hann 54 stk. sem er tveimur dýfum frá skólahreystimeti.   Sterkur strákur.  
 
Hreystigreipina sigraði Tinna Óðinsdóttir úr Hagaskóla og hékk hún í þrjár mínútur og fjórtán sekúntur.  
 
Lindaskóli sigraði hraðaþrautina glæsilega á  tímanum 02:13;86 mín.   Þetta voru þau Rakel Másdóttir og Guðmundur Örn Magnússon.  Guðmundur á sjálfur skólahreystimetið frá því í fyrra sem er 02:11 mín.  Nú er bara spennandi að sjá hvort Guðmundur Örn komi ekki í Framhaldshreysti þegar það byrjar.      Kominn með góða reynslu og á frábæran árangur. 
 
Tíu bestu og hraustustu skólalið landsins voru mætt í Höllina.  Öll liðin góð.   Þetta gerði keppnina afar spennandi og ekki nokkur leið að sjá hvaða skóli myndi sigra fyrr en seinustu grein var lokið.  
 
 
 Magnús Ólafsson forstjóri Mjólkursamsölunnar  og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra afhentu krökkunum verðlaunin sín. 

Mjólkursamsalan gefur öll verðlaun fyrir utan að Icefitness gefur skólahreystifötin.   

Allir keppendur fengu medalíu og íþróttatösku sem í var skólahreystihúfa og svitabönd. 
 
þriðja sætið fékk :  50 þúsund kr. renna til nemendafélags skólans,  íþróttataska full af skólahreystifötum, ostakarfa, medalía og eignarbikar.
 
annað sætið fékk :  100 þúsund kr. renna til nemendafélags skólans, íþróttataska full af skólahreystifötum, ostakarfa, medalía og eignarbikar.
 
fyrsta sætið fékk :  200 þúsund kr. renna til nemendafélags skólans, Rollerblade fitness línuskautar úr Útilíf og allur hlífðarbúnaður,  íþróttataska full af skólahreystifötum,  ostakarfa  , medalía og eignarbikar. 
 
Íþróttakennarafélag Íslands  afhenti  íþróttakennurum þremur stigahæstu skólanna 60 sippubönd.  Tuttugu bönd á hvern skóla.   Svo nú verða allir sippandi í Hagaskóla, Lindaskóla og á Siglufirði.
 
Nú er Skólahreysti 2008 lokið og við byrjuð að hlakka til Skólahreysti 2009. 
 
Við viljum þakka samstarfsaðilum okkar fyrir frábært samstarf. 

Er þar fyrst að telja Mjólkursamsöluna.  Ef MS væri ekki að starfa í þessu með okkur og styrkja þá væri Skólahreysti ekki til.  Mjólkursamsalan á heiður skilið fyrir þessa hugsun að vilja styrkja og styðja  við bakið á  því að auka hreyfingu barna og unglinga og stuðla að heilbriðgðari og bjartari  framtíð unga fólksins. 
 
Þakkir eru til Menntamálaráðuneytis fyrir styrk og Menntasviðs Reykjavíkurborgar og Toyota.    Einnig eru þakkir til þeirra sveitafélaga sem hafa séð sér fært að styrkja okkur. 
 
Einnig viljum þakka öllu okkar trausta og góða  samstarfsfólki fyrir frábæran vetur. 
 
Sjáumst á næsta ári, hraust og kát. 
 
bestu kveðjur, Andrés og Lára
 
 
 
 
 
 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Þrautirnar
Úrslit móta
Hreystivellir
IceFitness
Landsbankinn er styrktaraðili Skólahreysti
Skólahreysti - info(hjá)skolahreysti.is - Facebook